Undarlega árið 2020

Jæja, Þá er að detta í jól og þetta undarlega ár að verða liðið.

Mig langar að óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þakka ánægjuleg samskipti í leik og starfi.

Reyndar hafa þessi undarlegheit ekki haft mikil áhrif á mig, ég var kominn í heimavinnu og snertilaus samskipti löngu áður en fárið hófst.

Vinnan hélt áfram að þvælast fyrir. Endalaus verkefni við að teikna hús, burðarvirki, lagnir og hafnarmannvirki, ásamt stauti við eignaskiptayfirlýsingar, á sama tíma og ég var að stækka húsið fyrir hana Kristínu.

Það verður spennandi að sjá hvað nýtt ár ber í skauti sér, vonandi verður aftur hægt að þræða veitingastaði borgarinnar og jafnvel komast eitthvað lengra til. Það er skondið að ég fór oftar til borgarinna í október í fyrra en ég hef farið þangað allt þetta ár.

Hérna fyrir neðan er brjálað myndband af húsamódelunum mínum, sem fylla bráðum tíunda tuginn. Einn daginn verð þau trúlega fleirri en húsin sem ég hef teiknað í tvívíðu Autocad…..

Módelin frá 2018

Í dag er eitt og hálft ár frá því að ég hætti á verkfræðistofunni Stoð, eftir 13 ára starf. Síðan þá hef ég unnið heimavið sem tækniteiknari í lausamennsku.

Ég hef átt ánægjulegt samstarf við hönnuði. Bæði mælt upp hús og gert raunmódel sem þeir vinna áfram og teiknað hönnun eftir forskrift eða rissi.

Ég hef líka gert þónokkuð af tillöguteikningum fyrir fólk og fyrirtæki. Sett hugmyndir fólks í teiknimódel og unnið þær svo áfram með hönnuði. Ég vinn arkitektateikningar nær eingöngu í þrívíðu Revit módeli en verkfræðiteikningar að hluta í Autocad.

Hérna fyrir neðan eru flest akritektamódelin sem ég hef unnið á þessum tíma komin við eina götu.

Eitt af þessum húsum er Korputorg, þar áttu Arkís arkitektar grunn að módeli sem ég vann áfram, þar til þeirra fólk tók það lengra í hönnunarfasa. Sama á við um Dalbraut 12 í enda götunnar, annað er unnið af mér frá grunni.

BIM – Slól og skuggi

Frá því að fyrsta útgáfan af Autocad leysti teikniborðin af hólmi árið 1982, hefur þróun hönnunarforrita verið hröð. Núna hafa þrívið, gagnagrunnstengd hönnunarforrit tekið við af gamla Autocad og ný hugmyndafræði ryður sér til rúms. Hönnun er ekki lengur bara línur á blaði og texti heldur hefur hún form og yfirborð, ásamt því að hver eining hefur skilgreint efni.

BIM teiknimódel safna í gagnagrunn upplýsingum um einingar sem settar eru í módelið. Hverri einingu getur fylgt eðlisþyngd, rúmtak, verð og margt fleira. Þetta gefur endalausa möguleika á að kalla fram töflur og magntölur um bygginguna. Þar sem gerð og eiginleiki hlutana er skilgreindur er líka hætt að greina þætti eins og varmaleiðni og álag á burðarvirki. Þegar BIM módel er sett upp er það staðsett í veröldinni og því snúið rétt við áttum. Þannig er hægt að greina td. orkuþörf og vindálag, jafnframt því að skoða sól og skugga við bygginguna.

Þegar ég var beðin um að spá í hvort viðbygging sem ég teiknaði við einbýlishús mundi skyggja á sólpallinn hjá nágrannanum. Ég setti hús nágrannans og skjólvegginn hans upp á einfaldan hátt í módelinu af húsinu sem ég var að vinna með og bjó til þetta sólar myndbandið  hér að neðan.

Sundlaug Sauðárkróks

Vorið 2016 fékk ég það verkefni að gera raunteikningar af sundlaug Sauðárkróks vegna fyrirhugaðra framkvæmda við laugina.  Eins og stundum áður þegar ég hef verið að mæla upp og teikna hús, varð ég forvitinn um sögu þessa mannvirkis.

Það endaði  sem sagt þannig þarna um árið að ég skoðaði þessa sögu að gamni mínu, þegar ég hafði skilað mínu til hönnuðuna. Sagan er býsna merkileg. Laugin er upphaflega reist af miklum stórhug árið 1957 og stóð þá í útjaðri bæjarins að sunnan. Árið 1971 þegar landsmót UMFÍ var haldið á Króknum var þessu mannvirki lýst sem einni glæsilegustu sundlaug landsins. Sundlaugin var hönnuð sem innilaug og lengst af voru áform uppi um að ljúka því verki.

Haustið 2004 var skipaður starfshópur um uppbyggingu sundlaugarinnar. Þessi hópur vann mjög góða skýrslu um málið og setti fram metnaðarfullar hugmyndir.

Núna í upphafi árs 2018 eru að hefjast framkvæmdir viðendurbætur á Sundlauginni.

Hér er fjallað um sundlaugina i gömlum blaðagreinum.

Upphaflegar teikningar af sundlauginni

Skýrsla starfshóps um uppbyggingu sundlaugarinnar

Skýrsla starfshóps um uppbyggingu sundlaugarinnar

Í niðurstöðu skýrslunar segir meðal annars :

“Miðað við þær forsendur nefndarinnar, að auka aðsókn að Sundlaug Sauðárkróks, þarf að hafa í huga að nauðsynleg aðstaða sé fyrir hendi til að taka á móti þessum fjölda. Núverandi húsnæði er barn síns tíma og hentar ekki vel til að taka á móti miklum fjölda fólks. Nefndin telur best að byggja upp þessa nýja aðstöðu í einum áfanga. Fyrst verði útisvæðið, nýir búningsklefar og afgreiðsla byggt upp og í beinu framhaldi verði byggt yfir eldri laug. Með þessu móti verður sem minnst röskun á daglegri starfsemi laugarinnar.”

Fyrirhugaðar endurbætur á sundlauginni 2018 – myndband

Umfjöllun um framkvæmdirnar á vef sveitarfélagsins

Litapæl í Revit

Einn af kostum þess að gera húsateikningar í Revit er að allar einingar hússins hafa skilgreint efni. Það þýðir að hægt er að kalla fram og breyta litum og áferð á einstaka húshlutum með auðveldum hætti. Hér að neðan er myndband sem sýnir litapælingu sem ég vann um daginn. Einfalt módel eins og þetta gefur ágæta vísbendingu fyrir litaval.

3D í Autocad

Fyrir 13 árum gerði ég teikningar af breytingum á húsinu mínu. Ég fékk þær samþykktar vorið 2008. Síðan hefur ýmislegt gengið á og ég er enn að byggja… Teikningarnar gerði ég fyrst tvívíðar í Autocad og svo reisti ég þetta upp, eins og sagt var. Það var satt að segja pínu bras. Með tilkomu Sketchup og Revit er þetta minna mál, þrívíddin verður til um leið teiknað er. Aðal snilldin finnst mér samt vera gagnagrunnstengingin í Revit, sem gerir manni kleift að kalla fram magntölur og stærðir um leið og búið er að teikna, jafnframt því að fá alls kyns aðrar upplýsingar út úr teiknimódelinu.